Innskráning í Karellen
news

40 ára afmælisveisla Barnabóls 7.júní

08. 06. 2017

Í gær glöddumst við með fjölskyldum, fyrrverandi nemendum, sveitarstjórnarfólki, kærum samstarfsmönnum og konum og fögnuðum 40 ára starfsafmæli Barnabóls. Skólinn fékk fallegar gjafir og má nefna náttúrukubba frá Hólmasól á Akureyri, Hljóðasmiðju Lubba og ýtarefni frá foreldrafélaginu sem gaf líka glæsilegt segulkubbasett og einnig fengum við allt sem þarf til gulrótaræktunar frá fjölskyldu sem á stórt pláss í Barnabóli. Margrét Pála gaf Barnabóli hænsnahús fyrir hönd Hjallastefnunnar og erum við í skýjunum með framtíðina sem hænsnabændur og munum strax hefja undirbúning og sanka að okkur þekkingu um hvað þarf til að ala upp hamingjusamar hænur.

Á síðastliðnum 40 árum hefur margt vatn runnið til sjávar hér í Barnabóli frá því að Lionsklúbburinn hafði veg og vanda að undirbúningi og byggingu skólahússins og hóf leikskólinn starfsemi árið 1977. Fyrstu árin var hann tvísetinn og voru börn þá ýmist fyrir eða eftir hádegi í vistun, þá þótti heldur framúrstefnulegt að konur ynnu allan daginn en eins og við vitum þá þróast samfélagið og skoðanir með. Tímarnir hafa svo sannarlega breyst með tíð og tíma og árið 1996 var húsnæðið stækkað og í dag er skólinn einsetinn er 8,5 tíma vistun í boði. Sveitarfélag Skagastrandar rak skólann til ársins 2015 þegar gerður var rekstrarsamningur við Hjallastefnuna ehf. og er Barnaból í dag yngsti Hjallastefnuleikskóli landsins.

Við þökkum öllum þeim sem hafa komið að starfinu á einn eða annan hátt síðustu 40 árin, þið eigið öll hlut í velgengni og sögu starfseminnar og munuð halda því áfram um ókomna tíð.

Húrra!

María Ösp Ómarsdóttir - Daglegur stjórnandi

© 2016 - Karellen