Innskráning í Karellen
news

Útskriftarferð í Skagabúð

06. 06. 2017

Elstu nemendur Barnabóls fóru í hina árlegu útskriftarferð 31.júní - 2.júlí og var förinni heitið í Skagabúð úti á Skaga.

Börnin voru voðalega spennt og heldur betur tilbúin að takast á við þetta ævintýri þegar lagt var af stað frá leikskólanum í hádeginu á miðvikudeginum.

Fyrsti dagurinn var fullur af spenning, leikgleði og hamingju og við komum okkur fyrir, börnin bjuggu til þrautabraut úr stólum og borðum, við bökuðum pizzasnúða og drukkum djús. Við fórum í smá ferðalag á svæði vegagerðarinnar þar sem RISA sand/grjót hólar voru og mjög stórir pollar og börnin léku sér þar fram að kvöldmat. Við elduðum svo kjúkling á beini og franskar kvöldmat og lékum okkur inni fram að kvöldkaffi. Börnin sofnuðu mjög sæl og þreytt fyrsta kvöldið og sváfu vel.

Dagur tvö byrjaði snemma en við fórum á fætur rétt fyrir 7 og byrjuðum á því að fá okkur morgunverð áður en afmælisbarn dagsins, hann Viktor, bakaði köku handa vinum sínum sem þau svo skreyttu öll saman. Það var leikið úti og inni, en veðrið var eitthvað að stíða okkur svo inniveran var vinsælli fyrripart dags. Við borðuðum svo pylsupasta í hádeginu með hvítlauksbrauði og fórum í sveitaferð. Gunnur og Guðjón á Hofi tóku vel á móti hópnum og við fengum að skoða hænur, geitur og kindur ásamt því að fá að klappa litlu hvolpunum á bænum. Við vorum lengi í fjárhúsunum að gefa kindunum brauð og fengum svo svala, köku og kleinur hjá Gunni sem var alveg hreint afbragðsgott. Eftir heimsóknina rúntuðum við út í Kálfshamarsvík og hlupum aðeins að vitanum, en við vorum því miður ekki lengi þar vegna svakalegs roks sem feykti okkur öllum til og frá. Þegar heim var komið var kominn tími fyrir nónhressingu og krakkarnir borðuðu afmæliskökuna sem Viktor bakaði og við sungum afmælissönginn. Krakkarnir fengu gefisn sundpoka sem þau máluðu með textílmálningu eftir nónhressinguna og léku sér svo inni í plúskubbum, föndri og þrautabraut. Þau settu svo á pizzur fyrir kvöldmatinn og fengu svala að drekka með. Kvöldið fór í leiki og diskó og sofnuðu krakkarnir við söguna Síglaðir Söngvarar eftir erilsaman dag.

Síðasti dagur ferðarinnar einkenndist af spenningi yfir því að fara heim - en samt langaði þeim nú að vera aaaaðeins lengur og spurðu hvort við gætum ekki bara farið aftur seinna. Við gengum frá húsinu og krakkarnir fóru aðeins út að leika sér, veðrið orðið aðeins betra en fyrri daginn, þau fundu holuhreiður með tvem eggjum í og við komumst að því að þetta væri Spóahreiður. Þau fylgdust vel með hreiðrinu út um gluggann þann daginn. Rétt fyrir hádegismatinn fengu þau smá útskriftargjöf frá okkur og var það skjal með myndum af þeim frá því þau voru lítil á Yngri kjarna og til dagsins í dag. Einnig fengu þau eðalstein í fallegum poka sem táknar þá vináttu sem þau hafa gefið og tekið á móti á Barnabóli í gegn um árin og til að minna þau á að vináttan er verðmætust eðalsteina.

Við löggðum í hann eftir hádegismatinn og komum sæl og glöð eftir frábæra ferð aftur á Barnaból þar sem krakkarnir sýndu vinum og vinkonum gjafirnar sínar stolt og sögðu frá ferðalaginu.

© 2016 - Karellen