Innskráning í Karellen
news

Jákvæðni

30. 05. 2023

Jákvæð menning - eftir Bóas Hallgrímsson ❤️


Fyrir sumum kann það að hljóma framandi að hægt sé að þjálfa viðhorf, en við sem höfum kosið okkur starfsvettvang innan Hjallastefnunnar ættum öll að vera meðvituð um að það er einmitt tilfellið, við getum æft og þjálfað viðhorf okkar og þeirra barna sem okkur er treyst fyrir.

Nú er runnin upp jákvæðnilota, fjórða lota kynjanámskrárinnar og sú fyrsta á vorönn. Það er engin tilviljun að við tökumst á við jákvæðnina á þessum tíma skólaársins; frosthörkur, myrkur og dagar eru stuttir. Einmitt þess vegna einsetjum við okkur, í öllu okkar starfi, að halda gleðinni hátt á lofti setja okkur í stellingar og þjálfa jákvæðnina. Lotulyklarnir eru ákveðni, hreinskiptni, bjartsýni og gleði.

Við getum öll staldrað við og farið í naflaskoðun, velt því fyrir okkur hver okkar viðhorf eru, við getum speglað okkur í öðrum og stillt okkur af. Það eru fjölmargar leiðir til þess að ýta undir jákvæðni í eigin lífi, einfaldar leiðir. Nokkur einföld atriði sem mig langar að deila með ykkur, sem eru engin ný vísindi en alltaf er gott að árétta. Það er mikilvægt að setja tóninn strax að morgni, mæta nýjum degi með þakklæti og yfirvegun. Það má til að mynda gera með því að undirbúa morgunstundina kvöldið áður, finna til fatnað, pakka í tösku og sjá til þess að morgunstundin sé streitulaus. Hugsa um þá þætti tilveru okkar sem fylla okkur þakklæti, að gefa sér stund til þess er góð leið til þess að æfa viðhorf sitt. Virkni, það er mikilvægt að halda sér við efnið, halda einbeitingu og klára verkefni. Það eykur vellíðan. Að styðja aðra og vera hvetjandi er góð leið til þess að finna til gleði. Samkennd er okkur mikilvæg og það að styðja aðra er góð til þess að dreifa kærleika.

Í okkar skólum iðkum við jákvæðni allan ársins hring, en með lotunni góðu þá gefum við jákvæðni í leik og starfi sérstakan gaum. Við lyftum viðhorfsæfingum og leggjum sérstaka og ríkulega áherslu á jákvæða menningu. Verkefnin geta verið allskonar, leikir, leikþættir, hróshringir, listsköpun og sögur. Munum að það er alltaf gott að sækja góðar hugmyndir fyrir hópastarf til barna og æfa jákvæðni gagnvart tillögum. Gott er að iðka sérstaklega hið gamalgróna, en góða, Hjallastefnuboðorð „ekki segja ekki“.

Bjóðum börnunum að standa frammi fyrir jafningjum, vinum og vinkonum og segja uppbyggilega hluti um sjálf sig, um hvort annað. Skoðum umhverfi okkar og veltum því fyrir okkur hvað það er sem gleður okkur, hvað fyllir okkur þakklæti. Semjum um þakklætið sögur og ljóð. Finnum jákvæðar tilfinningar og beislum þær með málningu og penslum. Sendum bréf á vinakjarna. Bjóðum vinkonum og vinum upp á gleðistund og dans. Njótum þess að vera til og sýnum þakklæti í verki. Þetta eru frábær verkfæri til þess að sinna okkar uppbótarvinnu. Það mikilvægasta af öllu er að við, starfsfólk, séum fyrirmyndir, að við leyfum okkur að taka þátt í leiknum og gleðinni.

Uppskeruvika jákvæðnilotunnar er svo gleðivikan. En þá á gleði og glaumur að einkenna allt starf, þá ætlum við að njóta þess að vera til hvernig sem við kjósum að gera það. Mikið vona ég að mér auðnist að heimsækja sem flesta skóla í gleðivikunni og upplifa og gleðjast með ykkur.

Takk fyrir að vera jákvæð, fyrir að velja að gleði sem fagmennsku og takk fyrir að vera fyrirmyndir

© 2016 - Karellen